Ályktun aðalfundar FPR 2017

Ályktun aðalfundar Félags prófessora við ríkisháskóla vegna fjármálaáætlunar ríkisstjórnarinnar.

Aðalfundur Félags prófessora við ríkisháskóla, haldinn 16. maí 2017, gerir alvarlegar athugasemdir við fyrirhugaðar fjárveitingar til ríkisháskólanna næstu ár samkvæmt fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar.

Áætlunin greinir ekki eins og þyrfti á milli fjárveitinga vegna fyrirhugaðra fjárfestinga annars vegar og fjárveitinga til nauðsynlegs reksturs skólanna hins vegar. Þegar betur er rýnt í einstaka þætti áætlunarinnar er ljóst að óverulegar breytingar verða á rekstrarfé háskólanna á næstu árum. Þannig eykst til að mynda ekki rekstrarlegt svigrúm Háskóla Íslands fyrr en í fyrsta lagi eftir 2019. Gangi áætlunin óbreytt eftir mun það hamla eðlilegri nýliðun akademískra starfsmanna í háskólunum sem og uppbyggingu og þróun kennslu, bæði á grunn- og framhaldsstigi.

Ljóst er að fjárveitingar til reksturs háskólanna samræmast ekki með nokkru móti fyrirheitum stjórnvalda um að auka fjárveitingar háskólanna svo þær nái meðaltali OECD í fyrri áfanga og meðaltali Norðurlanda í síðari áfanga. Minna má á að yfirlýst stefna stjórnvalda samkvæmt fjármálaáætluninni er sögð vera „að styðja frekar við aukin gæði háskóla- og rannsóknarstarfsemi til að treysta alþjóðlega samkeppnishæfni”. Sú stefna er orðin tóm ef stjórnvöld standa ekki við fyrri fyrirheit um auknar fjárveitingar til háskólastigsins.

 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is