Störf og starfsskyldur prófessora

Í samræmi við reglur Háskóla Íslands nr. 605/2006 skiptast starfsskyldur kennara í þrjá meginþætti; kennslu (48%), rannsóknir (40%) og stjórnun (12%). Í reglunum má finna skilgreiningu starfsþátta, almennar starfsskyldur háskólakennara, hlutfallslega aukningu kennsluskyldu (prófessorar í fullu starfi með færri en 10 rannsóknastig á undangengnu ári eða að meðaltali síðustu þrjú eða fimm ár fá hlutfallslega aukningu í kennsluskyldu), rannsóknamisseri o.fl.

Í 4. gr. stofnanasamninga ríkisháskólanna við Félag prófessora við ríkisháskóla er að finna almennar skilgreiningar á rannsóknum, kennslu og stjórnun:

Kennsla
Kennsla er miðlun þekkingar til nemenda, þjálfun þeirra og umsjón með rannsóknaverkefnum þeirra.

Rannsóknir
Með rannsóknum er átt við sjálfstæðar rannsóknir þar sem starfsmaður beitir kunnáttu sinni og hæfileikum til nýsköpunar og þekkingaröflunar með það að markmiði að birta árangur af starfi sínu í fræðiritum eða með öðrum viðurkenndum hætti.

Stjórnun
Stjórnun/þjónusta tekur til þeirra verkefna sem prófessor sinnir vegna starfs síns innan Háskóla Íslands sem ekki er kennsla eða rannsóknir. Þar á meðal eru ýmis störf við að stýra deildum og námsbrautum, störf í nefndum, seta á fundum og vinna við stefnumótun, álitsgerðir og umsagnir á vegum miðlægrar stjórnsýslu, sviðs, deildar eða stofnunar, forsvar fræðigreina og rannsókna og önnur störf tengd þeim, skipulagning kennslueininga og umsýsla vegna nemenda og annarra innan og utan skólans sem ekki telst til beinnar kennslu eða rannsókna.

 

 

 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is