Starfsþróunarsjóður prófessora

Starfsþróunarsjóði prófessora er m.a. ætlað að bæta möguleika prófessora til að sækja ráðstefnu, sinna rannsóknum og bæta möguleika til rannsóknasamstarfs. Samkvæmt reglum sjóðsins hafa prófessorar við ríkisháskóla og stofnanir þeirra rétt að sækja um styrk í sjóðinn. Sjóðfélagar geta fengið styrk eftir að ferð hefur verið farin vegna útlagðs ferðakostnaðar. Þá geta emerítar sem vinna við rannsóknir á vegum skólans sem þeir voru ráðnir við þegar þeir gegndu föstu starfi, sótt um styrk til ráðstefnuferðar í tvö ár eftir að þeir fara á eftirlaun. Til þess að eiga rétt á styrkveitingu þar umsækjandi að hafa átt aðild að sjóðnum í a.m.k. eitt ár.

Stjórn sjóðsins 2024-2026 skipa:

 • Oddný G. Sverrisdóttir, FPR, formaður
 • Eyvindur G. Gunnarsson, FPR
 • Guðmundur R. Jónsson, HÍ
 • Kristinn P. Magnússon, HA
 • Halldóra Friðjónsdóttir, fjármála- og efnahagsráðuneyti 

Framkvæmdastjóri sjóðsins er Lilja Þorgeirsdóttir.

Umsóknareyðublað

1. Um sjóðinn, rétt sjóðfélaga o.fl.

 1. Um sjóðinn og markmið. Starfsemi sjóðsins byggir á samþykkt um Starfsþróunarsjóð prófessora sem stjórn Félags prófessora við ríkisháskóla samþykkti 3. apríl 2012.
  Markmið Starfsþróunarsjóðsins er að bæta möguleika félagsmanna til að sækja ráðstefnur, sinna rannsóknum og auka möguleika til rannsóknasamstarfs. Ennfremur er það markmið sjóðsins að styðja skóla og stofnanir þeirra til að gera prófessorum kleift að vinna að verkefnum sem fara saman við markmið beggja á þessum vettvangi.
 2. Starfsþróunarsjóður prófessora er Félags prófessora við ríkisháskóla.
 3. Rétt til að sækja um styrki í sjóðinn hafa prófessorar við ríkisháskóla [við ráðningu í starf prófessors],1 ríkisháskólar og stofnanir þeirra […]
 4. Fæðingarorlof. Sjóðfélagar njóta óskertra réttinda í fæðingarorlofi samkvæmt lögum nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof, ef greitt er stéttarfélagsgjald af greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði til stéttarfélags.
 5. Forgangur. Ef sjóðsþurrð verður eða sjóðurinn stendur illa miðað við tekjur og væntanlegar skuldbindingar að mati sjóðsstjórnar skulu þeir njóta forgangs sem aldrei hafa hlotið fyrirgreiðslu hjá sjóðnum. Ef þá er enn þörf á forgangsröðun er sjóðsstjórn heimilt að gefa fræðilegri verkefnum forgang umfram önnur.

2. Afgreiðsla umsókna

Stjórn sjóðsins fer yfir og afgreiðir umsóknir, sker úr um vafaatriði, t.d. um sjóðsaðild eða styrkhæfi umsókna og tekur á öðrum málum sem upp kunna að koma. Hún kemur eigi sjaldnar saman en þrisvar sinnum á ári, í janúar, júní og október.

3. Umsækjendur

 1. Prófessorar hjá ríkisháskólum, ríkisháskólar og stofnanir þeirra geta sótt um styrk úr sjóðnum vegna verkefna sem um getur í 4. gr.
 2. Prófessores emeriti. Prófessor á eftirlaunum, sem vinnur enn við rannsóknir á vegum háskóla síns getur sótt um styrk til ráðstefnuferðar í tvö ár eftir að hann fer á eftirlaun.

4. Styrkhæfi verkefna

 1. Inntak verkefnis. Verkefni þarf að jafnaði að varða annað hvort starf eða fagsvið sjóðfélaga til að vera styrkhæft. Starfsþróunarsjóður prófessora leggur áherslu á styrki til a) ráðstefnuferða, b) rannsóknamissera þar sem viðkomandi háskóli greiðir ekki allan ferðakostnað, c) rannsóknasamstarfs við erlenda háskóla og rannsóknastofnanir og d) rannsóknir við háskóla og rannsóknastofnanir sem eru hluti af rannsóknum prófessorsins.
 2. Hvað er styrkt. Sjóðfélagar geta fengið styrk vegna útlagðs ferðakostnaðar með almenningssamgöngum, hótel- og gistikostnaðar, námskeiðs- og ráðstefnugjalda. Akstur innanlands með einka- eða bílaleigubifreiðum er styrktur um sömu upphæð og lægsta fargjald almenningsvagna nemur.
 3. Hvað er ekki styrkt. Sjóðurinn styrkir ekki samgöngur innanbæjar, launatap, fæðiskostnað né kaup á námsgögnum. Félagsgjöld fást ekki endurgreidd úr sjóðnum. Tómstundanámskeið eru ekki styrkhæf. Sjóðsstjórn metur vafatilvik.
 4. Styrkfjárhæð. Hámarksupphæð styrkja miðast við 600.000 kr. á hverju almannaksári. Aldrei eru greiddir hærri styrkir en sem nemur framlögðum reikningum.

5. Umsóknir, frágangur þeirra og afgreiðsla

 1. Umsóknir. Sótt er um styrk á vefsíðu Félags prófessora (www.professorar.hi.is) á þar til gerðu eyðiblaði. Sjóðfélagar skulu vanda frágang umsókna og fylgja leiðbeiningum á umsóknareyðublaði. Öllum fylgigögnum skal hlaða inn með umsókninni.
 2. Skilafrestur. Umsókn um styrk skal berast sjóðnum innan árs frá lokum verkefnis.

6. Styrkveitingar úr sjóðnum

 1. Framvísun gagna. Greiðslur úr sjóðnum fara að jafnaði fram gegn framvísun pdf afrita frumgagna.
 2. Staðfesting á verkefni. Auk framvísunar gagna þarf að sýna fram á, t.d. með dagskrá eða þátttökulista að styrkurinn mæti kostnaði við verkefnið sem sótt er um. Staðfesting þarf að koma frá öðrum aðila en umsækjanda sjálfum. Nauðsynlegt er því að halda til haga öllum gögnum.
 3. Útborgun styrks. Styrkir úr sjóðnum eru að jafnaði greiddir út að úthlutunarfundum loknum. Þegar styrkur hefur verið greiddur sjóðfélaga er afgreiðslan tilkynnt honum með tölvuskeyti.
 4. Styrktímabil. Styrktímabil er almanaksárið. Á því tímabili er hægt að veita einn eða fleiri styrki að hámarksupphæð
 5. Tvígreiðsla eða ofgreiðsla styrks. Ef mistök verða í afgreiðslu styrkumsóknar eða greiðslu styrks munu starfsmenn sjóðsins leitast við að leiðrétta þau eins fljótt og hægt er. Ef sjóðfélagi hefur fengið tvígreiddan styrk eða ofgreidda styrkupphæð ber honum að tilkynna sjóðnum mistökin og endurgreiða þegar í stað þá hina ofgreiddu fjárhæð.
 6. Upplýsingar til skattyfirvalda. Í byrjun hvers árs eru sendar upplýsingar til skattyfirvalda þar sem gerð er grein fyrir styrkþegum og styrkupphæðum síðastliðins árs. Styrkir starfsþróunarsjóðs eru framtalsskyldir en ekki skattskyldir.

7. Hlé eða rof á sjóðsaðild

 1. Launalaust leyfi. Sjóðfélagi í launalausu leyfi á rétt á styrk samkvæmt reglum sjóðsins fyrstu 6 mánuði að öðrum skilyrðum uppfylltum.
 2. Atvinnuleysi. Sjóðfélagar sem orðið hafa atvinnulausir geta sótt um og fengið styrk úr sjóðnum samkvæmt eftirfarandi reglum:
  1. Skilyrði. Umsækjandi skal hafa átt aðild að sjóðnum í a.m.k. eitt ár […]2 og að ekki séu liðnir meira en 12 mánuðir síðan hann missti vinnuna.
  2. Ferli umsókna. Um form og afgreiðslu umsókna atvinnulausra gilda að öðru leyti sömu starfsreglur og um sjóðfélaga og styrkveitingar til þeirra.
 3. Annað rof á aðild. Stjórn sjóðsins ákveður hverju sinni hvort og hvernig meta skuli eldri sjóðsaðild til að brúa rof á aðild. Rof á aðild getur þó aldrei verið lengra en 4 mánuðir.

8. Málskotsréttur

Ef sjóðfélagi er ósáttur við afgreiðslu sjóðsins á styrkumsókn sinni og fylgigögnum á hann ávallt rétt á að vísa erindi sínu á ný til stjórnar sjóðsins. Verður afgreiðslan þá tekin upp á næsta fundi stjórnar.

9. Gildistökuákvæði

Reglur þessar voru samþykktar af stjórn Starfsþróunarsjóðs prófessora 13. október 2017 og stjórn Félags prófessora við ríkisháskóla 2. nóvember 2017. Þær taka gildi við birtingu á heimasíðu Félags prófessora við ríkisháskóla.

Ákvæði til bráðabirgða:3

Þrátt fyrir grein 3.2 er stjórn sjóðsins heimilt að víkja frá tveggja ára tímamarkinu, enda berist sjóðnum umsókn frá prófessor á eftirlaunum sem vinnur enn við rannsóknir á vegum háskóla síns, og Covid-19 heimsfaraldurinn kom í veg fyrir að heimildin væri nýtt innan tímamarkanna. Ákvæðið öðlast gildi 19. febrúar 2021 gildir til 1. mars 2023.

F.h. stjórnar Starfsþróunarsjóðs prófessora F.h. stjórnar Félags prófessora við ríkisháskóla

[1] Samþykkt af stjórn Félags prófessora við ríkisháskóla 25. október 2021 og gildir frá og með 1. júlí 2021.

[2] Samþykkt af stjórn Félags prófessora við ríkisháskóla 25. október 2021 og gildir frá og með 1. júlí 2021.

[3] Samþykkt af stjórn Félags prófessora við ríkisháskóla 19. febrúar 2021. 

Skilyrði fyrir styrkveitingum úr Starfsþróunarsjóði prófessora

 • Styrkir eru aðeins veittir að ferð lokinni.
 • Gerð er krafa um vandaðan frágang umsókna.

Þegar sótt er um styrk:

 • Sótt er um með rafrænum hætti á heimasíðu félagsins. Fylgigögnum er hlaðið upp með umsókninni. Athugið að hægt er að skanna mörg skjöl saman í eitt skjal og hengja með umsókn.
 • Aðeins skal sækja um styrk vegna einnar ferðar í hverri umsókn.

Fylgigögn með umsókn:

 • Sundurliða þarf allan útlagðan kostnað. Bæði í erlendri mynt og íslenskum krónum.
 • Allir reikningar verða sannanlega að vera greiddir af umsækjanda.
 • Staðfesting á greiðslu.
 • Afrit (pdf) af frumreikningum vegna útlagðs kostnaðar. Þetta á við um allan útlagðan kostnað, t.d. flugfarseðla, hótel, ráðstefnugjöld, lestir o.fl. Athugið að bókunarstaðfestingar vegna flugs og hótela eru ekki gildir reikningar.
 • Brottfararspjöld verða að fylgja umsókn ef sótt er um styrk vegna flugkostnaðar.
 • Staðfesting á þátttöku ef sótt er um styrk vegna ráðstefnuferðar.
 • Staðfesting frá viðkomandi háskóla auk sundurliðunar á öllum kostnaði, ef sótt er um styrk vegna rannsóknamisseris.

Meðal þess sem ekki er styrkhæft:

 • Fæðiskostnaður. Þegar sótt er um styrk vegna hótelkostnaðar þá er aðeins veittur styrkur fyrir gistingunni. Falli til annar kostnaður vegna hótelgistingar þarf umsækjandi að draga hann frá.
 • Bílaleiga.
 • Bílastæðagjöld.
 • Samgöngur innan borga.
 • Félagsgjöld.

1. grein
Heiti

Starfsþróunarsjóður prófessora er starfræktur á grundvelli bókunar 2 með kjarasamningi fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs og Félags prófessora við ríkisháskóla, sem undirritaður var 7. október 2011.

2. grein
Aðsetur

Aðsetur Starfsþróunarsjóðs prófessora er í húsakynnum Félags prófessora við ríkisháskóla, eða eftir nánara samkomulagi aðila. Kennitala sjóðsins er 431111-0630.

3. grein
Stefna og hlutverk

Markmið Starfsþróunarsjóðs prófessora er að bæta möguleika félagsmanna til að sækja ráðstefnur, sinna rannsóknum og auka möguleika til rannsóknasamstarfs. Enn fremur er það markmið sjóðsins að styðja skóla og stofnanir þeirra til að gera prófessorum kleift að vinna að verkefnum sem fara saman við markmið beggja.

Starfsþróunarsjóður prófessora sinnir hlutverki sínu meðal annars með eftirfarandi:

 • Skapa nauðsynlega yfirsýn yfir sjóði og fjármuni sem ætlað er að auka möguleika prófessora og stofnana til að ná framúrskarandi árangri í starfi sínu og samhæfa virkni sjóða með sambærilegan tilgang.
 • Afgreiða umsóknir í sjóðinn.

4. grein
Styrkir

Rétt til að sækja um styrki í sjóðinn hafa prófessorar við ríkisháskóla, ríkisháskólar og stofnanir þeirra. Stjórn sjóðsins setur úthlutunarreglur.

5. grein
Fjármál og tekjur

Tekjur Starfsþróunarsjóðs prófessora eru:

 • Umsamið gjald sem er hlutfall af launum og er sem hér segir: Frá og með 1. júlí 2011 greiðir launagreiðandi mánaðarlega iðgjald sem nemur 0,35% af heildarlaunum þeirra starfsmanna hlutaðeigandi launagreiðanda sem falla undir 1. gr. Iðgjaldið er greitt mánaðarlega eftir á samkvæmt útreikningi launagreiðanda. Frá og með 1. júlí 2012 skal iðgjaldsprósentan nema 0,70%, í stað 0,35% áður.
 • Frá og með 1. janúar 2020 er framlagi til Starfsmenntunarsjóðs BHM, samkvæmt grein 10.3.1 í kjarasamningi Félags prófessora við ríkisháskóla, beint til Starfsþróunarsjóðs prófessora að sinni, sbr. bókun 5 í kjarasamningi Félags prófessora við ríkisháskóla.
 • Vaxtatekjur.
 • Sjálfsaflafé.

Kostnaður vegna reksturs sjóðsins greiðist af tekjum hans.

Fjármuni Starfsþróunarsjóðs prófessora skal ávaxta á þann hátt sem stjórn telur öruggan á hverjum tíma.

6. grein
Hlutverk og starfshættir stjórnar

Stjórn Starfsþróunarsjóðs prófessora er skipuð til tveggja ára tveimur fulltrúum Félags prófessora við ríkisháskóla, tveimur fulltrúum háskólanna og einum fulltrúa fjármála- og efnahagsráðuneytis. Stjórn skiptir með sér verkum.

Hlutverk stjórnar Starfsþróunarsjóðs prófessora er að móta og þróa starfsemi sjóðsins í samræmi við markmið hans. Stjórnin ber ábyrgð á rekstri, fjárhag og eignum sjóðsins.

Stjórn skal funda reglulega, halda gerðarbók og rita í hana samþykktir sínar. Til þess að samþykkt sé lögmæt þarf meirihluti stjórnarmanna að greiða henni atkvæði. Atkvæði formanns ræður falli atkvæði að jöfnu.

Stjórnin skal árlega gera skýrslu um störf sín og senda hana til Félags prófessora við ríksháskóla með afriti til fjármálaráðuneytisins. Reikningsár Starfsþróunarsjóðs prófessora er almanaksárið. Uppsetning ársreikninga og endurskoðun skal gerð af löggiltum endurskoðanda. Ársreikning skal senda til Félags prófessora við ríkisháskóla.

7. grein
Framkvæmdastjóri

Stjórn ræður framkvæmdastjóra Starfsþróunarsjóðs prófessora. Framkvæmdastjóri stýrir hinu daglega starfi og sér um framkvæmd ákvarðana stjórnar. Framkvæmdastjóri ræður aðra starfsmenn í samráði við stjórn.

8. grein
Samstarf við aðra aðila

Starfsþróunarsjóður prófessora getur átt samstarf við aðra aðila og gert við þá samninga til lengri eða skemmri tíma til að vinna að markmiðum og verkefnum sjóðsins.

9. grein
Breytingar á samþykktum sjóðsins

Samþykktum sjóðsins verður aðeins breytt með samþykki stjórnar Starfsþróunarsjóðs prófessora.

10. grein
Slit sjóðsins

Starfsemi Starfsþróunarsjóðs prófessora verður einungis slitið með ákvörðun samningsaðila skv. 1. gr. Verði starfsemi sjóðsins lögð niður skal eignum ráðstafað í samræmi við markmið hans.

Reykjavík, 18. maí 2020

f.h. Félags prófessora við ríkisháskóla