Lög Félags prófessora við ríkisháskóla

1. gr. Nafn og heimili

Félagið heitir Félag prófessora við ríkisháskóla. Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík.

2. gr. Aðild

Félagsmenn eru prófessorar ráðnir við íslenska ríkisháskóla, þ.e. Háskóla Íslands, Háskólann á Akureyri, Landbúnaðarháskóla Íslands og Hólaskóla – Háskólann á Hólum.

Auk þess er lektorum og dósentum, sem eru ráðnir við framagreinda háskóla, heimil aðild að félaginu.

Prófessorar, sem látið hafa af starfi sínu við einhvern ríkisháskólann fyrir aldurs sakir, vegna veikinda eða af öðrum sambærilegum ástæðum (professores emeriti), eru félagsmenn án atkvæðisréttar.

3. gr. Hlutverk

Hlutverk félagsins er:

 1. Að vinna að kjara- og réttindamálum félagsmanna.
 2. Að gera kjarasamninga fyrir hönd félagsmanna.
 3. Að standa vörð um réttarstöðu félagsmanna gagnvart vinnuveitendum.
 4. Að efla samtakamátt og samheldni félagsmanna í málefnum sem snúa að kjaramálum og inntaki og gæðum háskólastarfs.
 5. Að efla vöxt og viðgang háskólastarfs í þjóðfélaginu.
 6. Að styrkja tengsl félagsmanna við starfssystkini innan lands og utan.
 7. Að vera málsvari félagsmanna gagnvart yfirvöldum háskólanna og öðrum stjórnvöldum í málum sem snerta tengsl vinnuveitanda og launþega.

4. gr. Aðalfundur

Aðalfundur fer með æðsta vald í málefnum félagsins. Aðalfund skal halda eigi síðar en í maí mánuði ár hvert. Skal til hans boðað skriflega eða með rafrænum hætti með minnst 14 daga fyrirvara. Stjórn getur ákveðið að halda stað- eða fjarfund eða blöndu af þessu tvennu. Aðalfundur er lögmætur, sé löglega til hans boðað. Dagskrá og tillögur um lagabreytingar, ef fram koma, skulu sendar félagsmönnum viku fyrir aðalfund. Félagsmenn, aðrir en emeriti, sem eru viðstaddir aðalfundinn hafa atkvæðisrétt. Emeriti hafa tillögurétt. Á aðalfundi ræður afl atkvæða við afgreiðslu mála nema um tillögur til lagabreytinga, sjá 7. gr.

Dagskrá aðalfundar skal vera sem hér segir:

 1. Lögð fram ársskýrsla stjórnar.
 2. Lagður fram ársreikningur, gerður af löggiltum endurskoðanda og yfirfarinn og áritaður af skoðunarmönnum.
 3. Tillögur um lagabreytingar, ef fram koma.
 4. Ákveðið félagsgjald sbr. 6. gr.
 5. Stjórnarkjör, sbr. 8. gr.
 6. Kosin kjörnefnd sbr. 8. gr.
 7. Kosnir tveir skoðunarmenn reikninga.
 8. Önnur mál.

5. gr. Ársreikningar

Fjárhagsár félagsins er almanaksárið. Uppgjör ársreikninga, gerðir af löggiltum endurskoðanda, skulu liggja frammi á skrifstofu félagsins viku fyrir aðalfund.

6. gr. Árgjald

Félagsgjald skal ákveðið á aðalfundi ár hvert. Tillögur um árgjald skulu kynntar í fundarboði aðalfundar. Ekkert gjald skal innheimt af félagsmönnum sem látið hafa af starfi, sbr. 3. mgr. 2. gr.

7. gr. Lagabreytingar

Lögum félagsins verður aðeins breytt á aðalfundi. Tillögum um lagabreytingar skal skilað til stjórnar félagsins eigi síðar en 1. apríl. Lagabreytingartillagna skal getið í aðalfundarboði og þær sendar félagsmönnum. Til samþykktar lagabreytinga þarf 2/3 hluta greiddra atkvæða á aðalfundi.

8. gr. Stjórn og kjörnefnd

Stjórn félagsins er kjörin á aðalfundi. Skal hún skipuð átta mönnum, formanni, varaformanni, gjaldkera og fimm meðstjórnendum. Annað árið skal kjósa formann sérstaklega auk þriggja meðstjórnenda til tveggja ára. Hitt árið skal kjósa fjóra meðstjórnendur til tveggja ára. Stjórnin skiptir með sér verkum á fyrsta stjórnarfundi eftir aðalfund. Forfallist tveir eða fleiri stjórnarmenn svo að þeir geti ekki sinnt skyldum út kjörtímabil sitt skal halda aukaaðalfund þar sem staðgenglar þeirra eru kosnir.

Tryggja skal eftir mætti að í stjórn félagsins séu ávallt stjórnarmenn af sem ólíkustum fræðasviðum og aldrei séu færri en einn úr öðrum ríkisháskólum en Háskóla Íslands.

Á aðalfundi skal kjósa þriggja manna kjörnefnd til þriggja ára. Kjörnefnd skal koma með tillögu um frambjóðendur. Tilkynningar um framboð til stjórnar skulu berast kjörnefnd eigi síðar en 1. apríl. Hafi ekki borist næg framboð skal kjörnefnd hlutast til um að afla nauðsynlegs fjölda framboða. Framboð til stjórnar sem kosið er um á aðalfundi skal birtast með fundarboði til aðalfundar.

Stjórn félagsins ræður málefnum þess með þeim takmörkunum, sem lög þessi setja.

9. gr. Stjórnarfundir

Stjórnarfundi skal boða með tryggilegum hætti og með eins dags fyrirvara, ef unnt er. Stjórnarfundur er ályktunarhæfur, ef fjórir stjórnarmenn hið minnsta sækja fundinn. Afl atkvæða ræður úrslitum á stjórnarfundi. Séu atkvæði jöfn, ræður atkvæði formanns. Gerðir stjórnarinnar skulu færðar til bókar.

10. gr. Samninganefnd

Stjórn skipar í samninganefnd með góðum fyrirvara áður en kjarasamningar falla úr gildi. Formaður samninganefndar skal vera stjórnarmaður í félaginu. Nefndin skal láta stjórn félagsins fylgjast reglulega með vinnu við kjarasamningagerð.

11. gr. Nefndir og trúnaðarmenn

Stjórnarmenn eru jafnframt trúnaðarmenn á sínum vinnustað. Við ríkisháskóla þar sem enginn stjórnarmaður er starfandi skulu trúnaðarmenn tilnefndir af stjórn félagsins eða félagsmönnum á sínum vinnustað. Trúnaðarmaður er tengiliður stjórnar og félagsmanna. Félagsmenn við hvern ríkisháskóla um sig geta kosið nefndir til að fjalla um sérmál síns skóla og valið fulltrúa í stjórnsýslunefndir þess skóla, í samráði við trúnaðarmann og stjórn.

12. gr. Félagsfundir

Almennan félagsfund skal að jafnaði boða skriflega með minnst þriggja daga fyrirvara og skal dagskrá tilgreind í fundarboði. Félagsfundur er lögmætur, sé löglega til hans boðað.

Stjórn er skylt að boða til félagsfundar, ef minnst tuttugu félagsmenn krefjast þess skriflega.

Stjórn er heimilt að halda félagsfundi á ákveðnum starfsstöðum. Um þá fundi gilda sömu reglur um boðun og um almenna félagsfundi.

13. gr. Gildistaka

Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða

Þrátt fyrir ákvæði 4. mgr. 8. gr. skal á aðalfundi í maí 2023 kjósa til tveggja ára formann og þrjá meðstjórnendur og fjóra stjórnarmenn til eins árs.

Þrátt fyrir ákvæði 2. og 3. mgr. 10. gr. skal ekkert árgjald tekið af lektorum og dósentum fyrr en við upphaf þess mánaðar eftir að Félag prófessora við ríkisháskóla hefur hlotið umboð til kjarasamningsgerðar fyrir lektora og dósenta.

Þrátt fyrir ákvæði 8. gr. skal stjórn skipa þriggja manna ad hoc kjörnefnd fyrir aðalfund
félagsins 2023.

Lög þessi voru samþykkt á aðalfundi Félags prófessora við ríkisháskóla 17. maí 2022.