Félagsfundur FPR ályktar um opin rými og sveigjanlegar starfsstöðvar
Almennur félagsfundur var haldinn í Félagi prófessora við ríkisháskóla hinn 17. mars. Á fundinum var rætt um kjaramál, matskerfið, tillögur að lagabreytingum og áform um opin rými og sveigjanlegar starfsstöðvar.
Ályktun félagsfundar í Félagi prófessora við ríkisháskóla 17. mars 2022 um opin rými og sveigjanlegar starfsstöðvar
Mikilvægt er að ríkisháskólarnir á Íslandi njóti akademísks frelsis og sjálfstæðis gagnvart stjórnvöldum um innra skipulag og ráðstöfun þess húsnæðis sem þeir hafa til afnota.
Fundurinn lýsir eindreginni andstöðu við hugmyndir um opin vinnurými og sveigjanlegar starfsstöðvar prófessora og annarra akademískra starfsmanna ríkisháskólanna.
Prófessorum og öðrum akademískum starfsmönnum í föstu starfi er nauðsyn að hafa sérstaka fasta vinnuaðstöðu í lokuðu skrifstofurými. Þeir þurfa gott og samfellt næði til starfa við vinnu sína með stjórnsýslu-, kennslu- og rannsóknargögn. Jafnframt þurfa þeir iðulega að kenna á skrifstofum sínum og eiga samskipti við einstaklinga í einrúmi. Vinnugögnin og samskiptin geta verið persónuleg og viðkvæm.
Þetta eru megin ástæður þess að reynsla annarra háskóla af opnum rýmum og sveigjanlegum starfsstöðvum í akademísku umhverfi eru neikvæð fremur en jákvæð. Vinna í opnum eða hálfopnum rýmum ásamt flutningi milli starfsstöðva eru til þess fallin að auka álag og vanlíðan í starfi og draga úr árangri og afköstum í vinnu.
Fundurinn gerir kröfu til þess að háskólayfirvöld séu málsvari akademískra starfsmanna í þessum efnum gagnvart stjórnvöldum.