Störf og starfsskyldur prófessora

Í samræmi við reglur Háskóla Íslands nr. 605/2006 skiptast starfsskyldur kennara í þrjá meginþætti; kennslu (48%), rannsóknir (40%) og stjórnun (12%). Í reglunum má finna skilgreiningu starfsþátta, almennar starfsskyldur háskólakennara, hlutfallslega aukningu kennsluskyldu (prófessorar í fullu starfi með færri en 10 rannsóknastig á undangengnu ári eða að meðaltali síðustu þrjú eða fimm ár fá hlutfallslega aukningu í kennsluskyldu), rannsóknamisseri o.fl.

Í 4. gr. stofnanasamninga ríkisháskólanna við Félag prófessora við ríkisháskóla er að finna almennar skilgreiningar á rannsóknum, kennslu og stjórnun:

Kennsla

Kennsla er miðlun þekkingar til nemenda, þjálfun þeirra og umsjón með rannsóknaverkefnum þeirra.

Rannsóknir

Með rannsóknum er átt við sjálfstæðar rannsóknir þar sem starfsmaður beitir kunnáttu sinni og hæfileikum til nýsköpunar og þekkingaröflunar með það að markmiði að birta árangur af starfi sínu í fræðiritum eða með öðrum viðurkenndum hætti.

Stjórnun

Stjórnun/þjónusta tekur til þeirra verkefna sem prófessor sinnir vegna starfs síns innan Háskóla Íslands sem ekki er kennsla eða rannsóknir. Þar á meðal eru ýmis störf við að stýra deildum og námsbrautum, störf í nefndum, seta á fundum og vinna við stefnumótun, álitsgerðir og umsagnir á vegum miðlægrar stjórnsýslu, sviðs, deildar eða stofnunar, forsvar fræðigreina og rannsókna og önnur störf tengd þeim, skipulagning kennslueininga og umsýsla vegna nemenda og annarra innan og utan skólans sem ekki telst til beinnar kennslu eða rannsókna.

Í samræmi við bókun 4 í miðlægum kjarasamningi FPR og fjármálaráðuneytis dags. 7. október 2011 og sbr. grein 5.1 í stofnanasamningi Háskóla Íslands og Félags prófessora við ríkisháskóla dags. 16. desember 2013 skiptast starfsskyldur prófessora í þrjá meginþætti; kennslu, rannsóknir og stjórnun.

Vinnuskylda prófessora án aukinnar kennsluskyldu með hliðsjón af rannsóknarvirkni
Fullt starf Hlutfall <30 ára 30-37 ára >37 ára
Kennsla 48% 792 781 769
Rannsóknir 40% 660 650 641
Stjórnun 12% 198 195 192
Samtals 100% 1650 1626 1602

 

Í grein 10.1.3 í kjarasamningi félagsins er heimildarákvæði til handa háskólaráði að lækka eða fella niður kennslu- og stjórnunarskyldu prófessora eitt eða tvö misseri í senn til þess að gera þeim kleift að verja auknum hluta vinnutíma síns til rannsóknastarfa.

Ávinnsluregla

Heimild til rannsóknamisseris er aðeins veitt hafi kennari sinnt að fullu kennslu- og stjórnunarskyldu undangengin sex misseri eða sex ár eftir því hvort sótt er um eitt eða tvö rannsóknamisseri. Ekki er heimilt að telja með misseri lengra aftur en frá síðast tekna rannsóknamisseri. Afgreiðsla rannsóknamissera er úti á fræðasviðum.

Rannsóknastig

Til að eiga kost á rannsóknamisseri á háskólaárinu þarf kennari að hafa 10 rannsóknastig að meðaltali sl. þrjú eða fimm ár (eftir því sem hagstæðara er fyrir kennarann) úr völdum flokkum matskerfis opinbera háskóla (aflstig).

Önnur skilyrði

Kennari verður að hafa skilað rannsóknaskýrslum (vinnumat) árlega. Ef kennari hefur farið í rannsóknamisseri áður þarf að liggja fyrir skýrsla um það. Forsetar fræðasviða geta þó heimilað frávik frá reglunum í sérstökum undantekningartilvikum. Þá skal kennari sem fer til rannsóknamisseris hafa í huga að tryggt verði að kennsla fari fram með eðlilegum hætti í skyldunámskeiðum.

Umsóknarfrestur

Frestur til að sækja um rannsóknarmisseri er 15. október ár hvert, fyrir bæði komandi haustmisseri árið á eftir og vormisseris í kjölfarið.

Nánari upplýsingar um rannsóknamisseri er að finna í Uglu.

Með heimild í lögum nr. 85/2008 um opinbera háskóla setti háskólaráð Háskóla Íslands reglur um aukastörf starfsmanna Háskóla Íslands. Reglur þessar ná til akademískra starfsmanna sem eru í a.m.k. 50% starfi við Háskólann. Reglurnar taka m.a. til upplýsingaskyldu, helgunar í starfi og hagsmunaárekstra. Forseti fræðasviðs hefur eftirlit með að starfsmenn sviðsins fari eftir reglum þessum, meðal annars á grunni upplýsinga sem honum eru veittar.

Nánari upplýsingar um aukastörf má sjá í reglum nr. 1096/2008 um aukaströf akademískra starfsmanna Háskóla Íslands.

Verklagsreglur um greiðslur vegna aukastarfa

Samkvæmt verklagsreglum Háskóla Íslands um greiðslur vegna aukastarfa innan skólans er meginreglan sú að fastir starfsmenn HÍ skulu ekki samtímis vera verktakar við háskólann. Kennara er heimilt, að fengnu samþykki forseta fræðasviðs, að sinna þjónustukennslu/-vinnu á vegum Endurmenntunar eða annarra stofnana háskólans. Heimildin er háð því að viðkomandi uppfylli starfsskyldur sínar við HÍ með viðunandi hætti, þ.e. uppfylli kennsluskyldu sína og sinni stjórnunarstörfum eftir því sem við á.

Leyfilegt árlegt hámark á umfangi slíkrar þjónustukennslu/-yfirvinnu er háð fjölda rannsóknastiga viðkomandi að meðaltali undanfarin þrjú ár. Sjá nánar í Verklagsreglum um greiðslur vegna aukastarfa innan Háskóla Íslands sem kostuð eru af öðru fé en opinberum fjárveitingum til Háskóla Íslands.