Kjarasamningur við ríkið framlengdur til eins árs
FPR hefur skrifað undir kjarasamning við Samninganefnd ríkisins (SNR) með fyrirvara um samþykki félagsfólks. Um er að ræða skammtímasamning er gildir afturvirkt frá 1. apríl 2023 til 31. mars 2024. Um sambærilegan samning er að ræða og önnur félög innan BHM hafa gert, það er um 7.2% launahækkun að ákveðnu hámarki í samræmi við kjarasamninga ASÍ og SA sem SNR lagði áherslu á að fylgja. Hámarkið hefur mest áhrif á félagsfólk í launaflokkum 15-18 og í þrepi 1. Stjórn FPR mat það svo að í ljósi þess að ekki var hægt að hreyfa við hámarkinu að það væri skynsamlegast að samþykkja þennan skammtímasamning enda væri ekki lengra komist í samningaviðræðum að þessu sinni.
Kynning á samningi og kosning
Samningurinn verður kynntur félagsfólki mánudaginn 15. maí kl. 16.00 rafrænt á Teams. Atkvæðagreiðsla um samninginn hefst kl. 17.00 þann sama dag og lýkur kl. 23.59 fimmtudaginn 18. maí. Slóð inn á kynningarfundinn og leiðbeiningar um kosninguna verða send í tölvupósti.
Kynning formanns á fundinum:
- Glærur
- Upptaka
Ljóst er að krónutöluhækkanir, hófstilltar launahækkanir og umrætt hámark hafa til lengri tíma þau áhrif að draga úr kaupmætti háskólamenntaðra og draga úr hvötum til háskólanáms og þá sérstaklega langskólanáms og þar með þátttöku í akademísku starfi. Það hefur nú þegar haft, og mun hafa, neikvæð áhrif á atvinnulífið og þjóðarhag. Nauðsynlegt er að launakjör háskólafólks verði samkeppnishæf. FPR mun leggja áfram áherslu á að leiðrétta laun og kaupmátt prófessora til samræmis við það sem gerist hjá hópum í sambærilegum störfum með sambærilega menntun við gerð langtímasamninga á næsta ári.
F.h. samninganefndar FPR,
Pétur Henry Petersen, formaður.