Header Paragraph

Stjórn FPR ályktar um vísindarannsóknir á Landspítala

Image
Krísuvík

Stjórn Félags prófessora við ríkisháskóla lýsir þungum áhyggjum af því hversu illa hefur tekist að fjármagna og styðja rannsóknir í klínískum vísindum á Landspítala á undanförnum árum. Stjórn félagsins hefur af því tilefni ályktað um stöðu vísindarannsókna í framhaldi af skýrslu McKinsey.

Ályktun stjórnar Félags prófessora við ríkisháskóla um vísindarannsóknir á Landspítala

Stjórn Félags prófessora við ríkisháskóla lýsir þungum áhyggjum af því hversu illa hefur tekist að fjármagna og styðja rannsóknir í klínískum vísindum á Landspítala á undanförnum árum. Við sameiningu Sjúkrahúss Reykjavíkur og Landspítala var mikil áhersla lögð á það af stjórnvöldum að stofnun Landspítala-háskólasjúkrahúss myndi í samræmi við nafngiftina efla hlut vísinda í starfseminni.

Í nýrri skýrslu McKinsey um framtíðarþróun þjónustu Landspítala er meðal annars að finna upplýsingar um hvernig staðið hefur verið að fjármögnun og stuðningi við vísindarannsóknir í heilbrigðisvísindum, en þær eru eitt af lögformlegum hlutverkum Landspítalans. Skýrslan staðfestir því miður vanfjármögnun og vanrækslu á þessu hlutverki til fjölda ára, án þess að brugðist hafi verið við. Afleiðingarnar eru víðtækar, m.a. glötuð tækifæri til nýsköpunar og bættrar þjónustu við sjúklinga, ásamt erfiðleikum við að laða vel menntað fagfólk til starfa og halda því í starfi, en það er forsenda þess að unnt sé að halda uppi kennslu og rannsóknum í heilbrigðisvísindum á háskólastigi til framtíðar.

Stjórn félagsins skorar á heilbrigðisráðherra og ráðherra vísinda, iðnaðar og nýsköpunar að bregðast þegar við ábendingum eigin ráðgjafa um þetta mikilvæga mál, með því að efla stuðning við vísindahlutverk spítalans og tryggja að þessi þáttur starfseminnar sé fjármagnaður sérstaklega á sambærilegan hátt og á háskólasjúkrahúsum nágrannalanda.

Reykjavík, 13. apríl 2022

f.h. stjórnar Félags prófessora við ríkisháskóla

Rúnar Vilhjálmsson