Header Paragraph

Umsögn Félags prófessora við ríkisháskóla um tillögur matskerfisstjórnar að endurskoðun matskerfis opinberra háskóla

Image
Kort og landslag

Stjórn Félags prófessora við ríkisháskóla (FPR) telur að framkomnar tillögur matskerfisnefndar að breytingum á matskerfi opinberra háskóla séu að flestu leyti til bóta. Þó hefur stjórnin nokkrar athugasemdir við tillögurnar og það sem í þær vantar.

Rannsóknir

1) Jákvætt er að stig fyrir bækur og bókarkafla eru gerð gagnsærri sem dregur úr hættu á matskenndu ósamræmi sem stjórn FPR hefur áður varað við í umsögnum sínum. Framlagður listi yfir alþjóðleg toppforlög vekur þó spurningar. Þar vantar ýmis forlög sem um langt skeið hafa skipað sér í fremstu röð, ekki síst Academic Press, Wiley-Blackwell, Yale University Press, Springer og Elsevier. Þessi forlög er enda að finna á ýmsum listum yfir fremstu fræðibókaforlög heims, öðrum en þeim finnska lista sem matskerfisnefnd hefur lagt traust á. Ástæða er til að skoða þessar tillögur nefndarinnar nánar.

2) Ekki eru lagðar til breytingar á fjölhöfundareglu. Eins og stjórn FPR hefur áður bent á í umsögnum um matskerfið skiptist framlag höfunda sjaldnast jafnt í fjölhöfundaverkum, enda er hlutur fyrsta höfundar og samskiptahöfundar (corresponding author) að jafnaði mun meiri en annara höfunda. Þetta leiðir því til að framlag þessara höfunda er mjög vanmetið og þá jafnframt að hlutur annara meðhöfunda verður hlutfallslega ofmetinn. Eðlilegt væri að fjölhöfundareglan tæki mið af þessu. Gera má þá athugasemd við reglu um viðbótarstig að sett eru skil við 4 eða færri höfundarverk (en þá gefur aðeins sitt höfundarverk viðbótarstig). Séu fjölhöfundarverk fleiri, gefa 2 verk viðbótarstig. Eðlilegra væri að fella niður þessi skil (≤4 verk og ≥5 verk) en setja hins vegar hámark á fjölda verka sem gefið gætu viðbótarstig (til að mynda 3 verk).

3) Í tilvitnunum eru áfram veitt flest stig fyrir fyrstu tilvitnanirnar með stigbundinni skerðingu á rannsóknastigum eftir því sem tilvitnunum fjölgar. Þetta er sagt gert í því skyni að jafna mun á milli fræðasviða. Hæpið er að skerðingarregla af þessu tagi jafni slíkan mun. Eðlilegra væri, eins og stjórn FPR hefur áður bent á í umsögnum um matskerfið frá 29. janúar 2016 og 16. febrúar 2018, að taka tillit til ólíks fjölda tilvitnana milli greina og sviða, en þær tölur eru þegar til í alþjóðlegum gagnagrunnum, og meta síðan hlutfallslega stöðu hvers fræðimanns innan sinnar greinar/sviðs til stiga. Fræðimaður telst þá tilheyra þeirri grein/sviði sem flestar greinar hans falla innan (sé um jafnan fjölda birtra greina fræðimanns að ræða í fleiri en einni grein/sviði er sú grein/svið valin sem best kemur út fyrir hann).

4) Stjórn FPR fagnar tillögu matskerfisnefndar um að greinar sem birtast í svokölluðum „predatory“ eða „sjóræningjatímaritum“ verði ekki metnar til stiga.

5) Matskerfisnefnd gerir engar tillögur um breytingar á gildandi reglum um rannsóknastig fyrir námsefnisgerð. Í því sambandi vill stjórn FPR minna á fyrri athugasemd sína um þetta atriði, en þar sagði: „Við þennan lið er það að athuga að þótt gerð kennslu- og fræðsluefnis byggi á fræðilegri þekkingu höfundar felst almennt ekki í slíkri vinnu öflun nýrrar þekkingar, sem er inntak rannsóknastarfs. Ef viðkomandi aðili er meðal höfunda að birtum frumrannsóknum sem hafa farið fram og tengjast námsefninu, fær hann þær að sjálfsögðu metnar undir rannsóknalið/um matsreglnanna. Annar annmarki þessa undirkafla (A.9.1) er að hann tekur einungis til leik-, grunn- og framhaldsskóla en ekki fullorðinsfræðslu eða háskólastigs“ (Athugasemdir FPR um matskerfið frá 16. febrúar 2018). Ekki gengur að gera mun á kennurum og sérfræðingum eftir því hvort þeir vinna námsefni fyrir fullorðinsfræðslu eða háskóla, eða skóla á lægri stigum. Þá gengur ekki að aðrir akademískir starfsmenn sem vinna fræðsluefni á sínu sérsviði fyrir skjólstæðinga sína og aðra notendur fái ekki sambærilegt mat á verkum sínum. Þetta gildir ekki síst á heilbrigðisvísindasviði, þar sem ýmsir starfsmenn inna af hendi umfangsmikla vinnu við gerð klínískra leiðbeininga og við gerð fræðsluefnis fyrir sjúklinga. Því leggur félagið til að þessi liður verði víkkaður, felldur út úr A-hluta og settur undir þjónustuhluta (D-hluta) matsreglnanna.

6) Stjórn FPR sér enga ástæðu til að auka stigamat á „efnismiklum skýrslum“. Hér er ekki aðeins um matskennt atriði að ræða í sjálfu sér (hvað sé efnismikið), heldur er hér almennt um efni að ræða sem ekki hefur birst á viðurkenndum vísindalegum vettvangi og hlotið viðurkennda ritrýni. Almennt gildir að sé efni skýrslna nægilega bitastætt á það að geta leitt til birtingar á viðurkenndum vísindalegum vettvangi og þá fást rannsóknastig fyrir. Þannig er enda um ýmsar skýrslur sem fyrst eru gefnar út í ritröðum háskóla og rannsóknarstofnana en koma svo endurbættar út í ritrýndum tímaritum og jafnvel í bókum hjá fræðibókaforlögum.

Kennsla

7) Kennsluferilskrá fær, samkvæmt tillögum matskerfisstjórnar, 1 stig og þá í fyrsta sinn sem hún er metin af alþjóðlegum sérfræðingum í tengslum við umsókn í kennsluakademíuna. Hér er viðurhlutamikil umgjörð utan um eitt kennslustig. Þá er heldur ekki ljóst hvort stigið tengist árangursríkri umsókn í akademíuna eða ekki. Þetta atriði þyrfti að einfalda og skýra.

8) Gefin eru allt að 2 stig fyrir kennslutækninámskeið, en óljóst hvort stigin miðast við setuna eina eða frekari árangur af slíkri ástundun. Eins er ekki ljóst hvort hægt er að safna ótilteknum fjölda kennslustiga gegnum námskeiðaleiðina, eða fá áframhaldandi kennslustig fyrir að sitja sama námskeiðið aftur. Þetta þarf að skýra betur.

9) Fagna ber því að leiðbeining BS og BA nema fái nú kennslustig, eins og stjórn FPR hefur áður kallað eftir í umsögnum um matskerfið, enda er mikilvægt að kennarar sýni þeirri leiðbeiningu alúð og sú alúð sé metin. Leiðbeiningin leggur mikilvægan grunn að fræðilegum skilningi og vinnubrögðum háskólanemenda. Heldur er þó tillagan klén (hálft kennslustig). Stjórn FPR leggur til að veitt verði 1 stig fyrir leiðbeiningu hvers BA eða BS verkefnis, ellegar að stigagjöf verði miðuð við einingafjölda í BA eða BS verkefnum sem leiðbeining tekur til (t.d. 0,1 stig pr. einingu). Eðlilegt er síðan að sett sé hámark á árlegan fjölda stiga sem kennari getur fengið með þessari leiðbeiningu.

Stjórnun

10) Eins og stjórn FPR hefur áður bent á (sjá t.d athugasemdir FPR um matskerfið frá 16. febrúar 2018) er obbinn af stjórnunarframlagi kennara bundið í deildum sem eru auk þess faglegar grunneiningar háskóla. Sá annmarki er á tillögum matskerfisstjórnar að stjórnun kennara innan deilda er ekki metin til stiga. Þetta er á skjön við aðrar tillögur um stjórnun sem meta stjórnunarstörf á vegum rektors, háskólaráðs og sviða. Kennarar sem leggja sig fram við stjórnunarstörf í sínum deildum, m.a. með úttektum og vinnu í nefndum, ættu að fá sitt framlag metið ekki síður en þeir sem setjast í nefndir utan deildar. Skilgreina ætti hvaða nefndir deilda, og þá einkum fastanefndir, gefi rétt til stjórnunarstiga. Einnig kemur til greina að úttektir og sérverkefni sem unnið er að og skilað með greinargerð fáist metin til stjórnunar hvort sem eru unnin innan eða utan deildar starfsmannsins.

11) Almennt má segja um gildandi stjórnunarkafla matskerfisins og tillögur matskerfisnefndar, að of mikil áhersla er á embætti og nefndaraðild akademískra starfsmanna, en áherslu skortir á þau verkefni af stjórnunarlegu tagi sem þeir inna af hendi.

Þjónusta

Jákvætt er að matskerfisstjórn skýrir betur matsforsendur í einstökum liðum þjónustu, einkum þegar svigrúm er mikið á stigaskala. Innan þjónustuþáttarins skortir þó enn mat á atriðum sem eðlilegt er að komi til mats hjá akademískum starfsmönnum.

12) Ritrýni er ekki metin í matskerfinu, að undanskildum birtum ritdómum, enda þótt hún sé lykilþáttur í gæðatryggingu vísindastarfseminnar og geti tekið drjúgan hluta af starfi akademískra starfsmanna eins og stjórn FRP hefur áður bent á í fyrri athugasemdum um matskerfið. Í beiðni um ritrýni felst virðukenning á hæfni vísindamanns á ákveðnu rannsóknarsviði um leið og veruleg sérfræðileg vinna felst í rýninni. Hér væri eðlilegt að stíga skref í átt að mati, gegn framlagðri staðfestingu á rýninni.

13) Sérstök viðurkenning sem akademískur starfsmaður hlýtur frá viðurkenndum vísindafélögum fyrir vísindastörf sín eða vísindamiðlun fær ekki mat í matskerfinu (hér má benda á að viðurkenning fyrir kennslu fær stigamat). Auðvelt er að staðfesta slíkar vísindaviðurkenningar og eðlilegt að þær komi til skoðunar við mat á þjónustu.

14) Loks má nefna að akademískum starfsmönnum hlotnast öðru hverju sá heiður að fá gestastöður við viðurkenndar alþjóðlegar vísindastofnanir (t.d. gestaprófessor, gestavísindamaður). Slíkar stöður fela í sér viðurkenningu á vísindastarfi viðkomandi einstaklings og eru heinaskóla hans til álitsauka. Þessar stöður eru annað og meira en heimsóknaaðstaða (visiting scholar) sem akademnískir starfsmenn geta fengið t.d. í rannsóknaleyfum. Auðvelt er að staðfesta slíkar stöðuveitingar og eðlilegt að þær komi til mats.

Reykjavík, 19. nóvember 2021

Rúnar Vilhjálmsson
Formaður Félags prófessora við ríkisháskóla